Fyrsti leikur 3.deild karla – upphitun

Loksins er komið að því. Eftir langt og strangt undirbúningstímabil er loksins komið að fyrsta leik íslandsmótsins hjá KF. KF spilar í 3. deild karla 3.árið í röð en liðið var grátlega nálægt að komast upp um deild í fyrra.
Mótherjar 1. umferðar verða nýliðarnir Álftanes. Álftanes lenti í 4. sæti 4.deildarinnar í fyrra og komust þeir ekki upp um deild strax en eftir að Höttur og Huginn féllu bæði úr 2.deild sameinuðust liðin og því var eitt pláss laust í 3. deildinni og fékk Álftanes sætið.

Alexander Már er mættur aftur í KF – Mynd: GuðnýÁG
KF og Álftanes hafa aldrei mæst áður og verður því spennandi að sjá þessa viðureign.
Hópurinn hjá KF er stór og öflugur þetta árið og er mikil samkeppni um sæti í liðinu sem eru bara jákvæðar fréttir. Stór kjarni liðsins frá því í fyrra spilar áfram í sumar ásamt því hafa bæst við sterkir strákar sem koma til með að bæta liðið. Aksentije Milisic byrjar tímabilið í leikbanni eftir rautt spjald í síðasta leik gegn Dalvík/reynir í fyrra og Ingi Freyr Hilmarsson er líka frá vegna meiðsla. Annars eru aðrir heilir og klárir fyrir leikinn.
Leikurinn hefst klukkan 16:00 á morgun, laugardaginn 4. maí og verður leikið á Bessastaðavelli sem er gervigrasvöllur. Við hvetjum alla stuðningsmenn KF á suðurlandi sem og öllu landinu að mæta og styðja liðið til sigurs.
ÁFRAM KF