Lög félagsins

LÖG KNATTSPYRNUFÉLAGS FJALLABYGGÐAR

1. gr. Félagið heitir Knattspyrnufélag Fjallabyggðar (KF). Heimili og varnarþing félagsins er í Ægisgötu 15 Fjallabyggð. KF er aðili að UÍF, ÍSÍ og UMFÍ.

2. gr. Tilgangur félagsins er að vinna að eflingu knattspyrnu í Fjallabyggð, glæða áhuga almennings fyrir gildi íþrótta og virkja sem flesta til þátttöku í þeim. Félagið hefur iðkun íþrótta á stefnuskrá sinni. Einnig skal það vinna forvarnavinnu gegn áfengis, vímuefna og tóbaksnotkun félagsmanna sinna.

3. gr. Merki félagsins er rauður og hvítur bolti í forgrunni. Innan í miðjum bolta standa stafirnir KF með svörtum stöfum. Til hliðar við boltann eru tvær eldingar og í bakgrunni er skjöldur. Í forgrunni er nafnið Fjallabyggð.

4. gr. Keppnisbúningur félagsins skal vera blár og varabúningur félagsins skal vera hvítur.

5. gr. Félagar geta allir orðið sem lagt hafa fram skriflega inngöngubeiðni, með upplýsingum um fullt nafn, kennitölu og heimilisfang. Auk þess er stjórn heimilt að skrá aðra sem félaga innan þess ef sérstakar kringumstæður leyfa og er þá heimilt að þeir félagar verði undanþegnir félagsgjaldi.

6. gr. Félagar skulu greiða árgjald til félagsins með þeim undantekningum sem getið er í 5. gr. Skal það ákveðið á aðalfundi ár hvert. Árgjaldið rennur í aðalsjóð félagsins. Ævifélagi getur hver sá orðið er náð hefur 25 ára aldri. Gjald ævifélaga er 20.000.-krónur og er greitt í eitt skipti fyrir öll.

7. gr. Aðalfund félagsins skal halda ár hvert eigi síðar en 31. mars. Aðalfundur hefur æðsta vald innan félagsins og ákvörðunarrétt í öllum málum þess. Aðalfund skal auglýsa opinberlega með minnst viku fyrirvara. Tillögur skulu berast með minnst tveggja daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

8. gr. Dagskrá aðalfundar:
a) Formaður setur fundinn.
b) Kosning fundarstjóra og fundarritara.
c) Skýrsla stjórnar.
d) Ársreikningar lagðir fram til umræðu og samþykktar.

e) Fjárhagsáætlun kynnt.
f) Lagabreytingar og tillögur.
g) Ákvörðun árgjalda.
h) Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
i) Kosning nefnda og fulltrúa í UÍF.

j) Ársreikningar m.fl. ráða lagðir fram til umræðu og samþykktar.
k) Fjárhagsáætlun m.fl. ráða kynnt.

l) Önnur mál.

9. gr. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi. Þó öðlast lagabreytingar aðeins gildi að þær hljóti samþykki tveggja þriðju hluta þeirra sem atkvæða greiða, enda taki fullur helmingur þeirra sem á fundi eru, þátt í atkvæðagreiðslunni. Kosningar skulu vera skriflegar og leynilegar sé þess óskað. Falli atkvæði jafnt skal kosning endurtekin einu sinni. Verði þá aftur jafnt skal hlutkesti ráða.

10. gr. Allir skuldlausir félagsmenn 18 ára og eldri hafa atkvæðisrétt, málfrelsi, tillögurétt og kjörgengi til stjórnarstarfa á aðalfundi félagsins.

11. gr. Auka aðalfund má halda ef stjórn telur nauðsynlegt eða ef 10. af hundraði atkvæðisbærra félaga óska þess skriflega og tilgreina fundarefni það sem ræða skal. Auka aðalfund skal boða með sama hætti og reglulegan aðalfund. Reglur um aðalfund gilda eftir því sem við á, um auka aðalfund. Þó skulu lagabreytingar, stjórnarkjör og stofnun nýrra deilda aðeins fara fram á reglulegum aðalfundi.

12. gr. Aðalstjórn félagsins skal skipuð fimm einstaklingum, formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Formaður skal kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Kjörtímabil stjórnar er milli aðalfunda. Á aðalfundi skal einnig kjósa tvo skoðunarmenn reikninga félagsins og einn til vara. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn á víxl, þ.e.a.s. að þremur stjórnarmönnum er skipt út árlega. Meistaraflokksráð félagsins skal skipað a.m.k. þremur einstaklingum en helst fimm eða fleiri. Ráðið skiptir með sér verkum. Barna- og unglingaráð félagsins skal skipað a.m.k. þremur einstaklingum en helst fimm eða fleiri. Ráðið skiptir með sér verkum

13. gr. Formaður boðar til stjórnarfunda mánaðarlega eða svo oft sem hann telur nauðsynlegt eða ef einhver stjórnarmaður óskar þess. Stjórnarfundir eru löglegir ef meirihluti stjórnar er mættur. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns.

14. gr. Stjórn skal vinna að því að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess út á við. Hún skal einnig samræma starfsemi félagsins inn á við og hafa eftirlit með starfsemi allra flokka félagsins. Hún hefur umráðarétt yfir eignum félagsins og markar stefnu þess í öllum veigamiklum málum.

15. gr. Stjórn veitir viðurkenningar fyrir árangur eða störf í þágu félagsins, samkvæmt sérstakri reglugerð sem samþykkt skal á aðalfundi.

16. gr. Komi fram óskir meðal félagsmanna um stofnun nýrrar íþróttadeildar innan félagsins skal senda stjórn félagsins þær skriflega undirritaðar af minnst 25 atkvæðisbærra félögum. Er stjórninni þá skylt að leggja þær fyrir næsta reglulega aðalfund félagsins.

17. gr. Eigi sjaldnar en þrisvar á ári skal stjórn félagsins halda fund með formönnum ráða innan félagsins, þar sem þeir gera stjórninni grein fyrir starfsemi sinni.

18. gr. Reikningsár félagsins og ráða er almanaksárið.

19. gr. Allar eignir félagsins, hvort sem þær eru í umsjá stjórnar eða ráða, eru sameign félagsins. Verðlaunagripi og verðmæt skjöl skulu ávallt vera í vörslu stjórnar.

20. gr. Úrsögn úr félaginu skal tilkynna skriflega til stjórnar.

21. gr. Að öðru leyti gilda lög UÍF, lög ÍSÍ og lög UMFÍ.

Lög KF voru samþykkt á fyrsta aðalfundi félagsins þann 10.11.2010.

Breytingar á lögunum voru gerðar á aðalfundi félagsins árið 2011.

Breytingar á lögunum voru gerðar á aðalfundi félagsins 03.maí 2016.