Grátlegt tap gegn Augnablik

KF og Augnablik mættust í Fífunni á laugardaginn. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn og var búist við hörku leik sem varð raunin.
Augnablik byrjaði með krafti fyrstu 15 mínúturnar og stjórnuðu spili leiksins vel. KF náði svo að sækja í sig veðrið og var fyrri hálfleikur mjög jafn þar sem bæði lið skiptust á að sækja. Það voru heimamenn sem skoruðu fyrsta markið og kom það þegar um 5 mínútur voru til hálfleiks og staðan 1-0 í hálfleik, Augnablik í vil.
Síðari hálfleikur var heldur betur viðburðaríkur en þá mættu Augnablik mjög vel til leiks og náðu að setja 2 mörk á KF og komust þeir í 3-0 og flestir myndu halda að leik væri lokið. en á síðustu 30 mínútum jafnar KF leikinn með mörkum frá Halldóri Loga og Austin Diaz sem komu báðir inná sem varamenn. Halldór Logi setti fyrstu tvö og Austin jafnar leikinn á 90. mínútu. Þetta var jafnframt fyrsti leikur Austin fyrir KF. KF lagði allt í sóknina til að ná sigri en endaði með því að Augnablik fær skyndisókn og skorar á 93. mínútu og sigra þeir 4-3. Svekkjandi tap eftir glæsilega endurkomu, en svona er víst fótboltinn…
Næsti leikur KF er gegn Einherja á Ólafsfjarðarvelli, fimmtudaginn 26. júlí.
ÁFRAM KF